Fjölmiðlaverðlaun götunnar eru afhent árlega til fjölmiðlafólks sem fjallar um fátækt á Íslandi af kostgæfni og virðingu af Pepp Ísland – samtökum fólks í fátækt.

Verðlaunað er fyrir umfjöllun öllum flokkum fjölmiðla: í sjónvarpi, útvarpi, prentmiðlum og vefmiðlum, hvort sem um er að ræða fréttir, viðtöl, greinar, stuttmyndir eða annað efni. Verðlaunin eru táknræns eðalis og eru afhent þeim einstaklingi, eða einstaklingum, sem vinnur umfjöllunina, en ekki þeim miðli sem hún birtist í.

Pepp Ísland er grasrótarhreyfing fólks með reynslu af fátækt og er hluti af samtökunum EAPN á Íslandi. Fjölmiðlaverðlaun götunnar eru að fyrirmynd systursamtaka í Austurríki og eru samstarfsverkefni svipaðra hreyfinga í nokkrum Evrópuríkjum.

Markmiðið er að efla faglega og metnaðarfulla fjölmiðlaumfjöllun um fátækt sem samtökin telja að skili sér í auknum skilningi samfélagsins á þeim aðstæðum sem þeir efnaminni búa við, enda er aukinn skilningur eina leiðin til úrbóta. Einnig er jákvæð orðræða mikilvægur liður í valdeflingu þeirra sem búa við fátækt og því nauðsynlegt að sporna gegn niðrandi umfjöllunum með því að verðlauna það sem vel er gert.

Verðlaunin voru afhent í fyrsta skipti árið 2017.

2019

1. Gabríel Benjamín: „Öryrkjar enn og aftur látnir sitja á hakanum“

Gríðarlega mikilvæg og þörf grein sem afhjúpar annmarka starfsgetumatsins og varpar ljósi á þær afleiðingar sem það hefur haft í för með sér í öðrum löndum. Lýsir alvarleika þess að ekki sé hlustað á viðvörunarbjöllur varðandi þetta kerfi og þeim þrýstingi sem talsmenn öryrkja upplifa frá stjórnvöldum í að þvinga það í gegn. Faglega unnin og upplýsandi umfjöllun sem kemur sýn öryrkja vel til skila. Raunsönn og mikilvæg grein.

2. Helgi Seljan, Aðalsteinn Kjartansson og Stefán Drengsson: „Svarta hliðin á Íslenskum vinnumarkaði“

Öflugur og vel unninn þáttur um dökkan veruleika félagslegs undirboðs á íslenskum vinnumarkaði. Skyggnst er inn í veruleika erlends vinnuafls og greint frá því óöryggi sem fylgir því að vera í ókunnu landi með takmörkuð réttindi og litlar upplýsingar í höndum til að komast út úr aðstæðunum. Mikilvæg og yfirgripsmikil umfjöllun sem vakti almenning til vitundar um falið vandamál, nútímaþrælahald í íslensku samfélagi, sem augljóslega skortir á eftirlit með.

3. Jón Bjarki Magnússon: „Með þrjár háskólagráður og í fullu starfi, en samt í fjárhagslegum nauðum“

Áhrifaríkt viðtal sem segir mikla sögu og lýsir vel því valdaleysi og vonleysi sem fylgir því að festast í fátæktargildrunni. Varpar ljósi á ömurlega stöðu láglaunafólks á íslenskum leigumarkaði, úrræðaleysi stjórnvalda og hvernig áhrif það hefur á líf barna að búa ekki við húsnæðisöryggi. Lýsir daglegri baráttu sem margir standa í og þeim fáránleika að menntun skili sér ekki í öruggri afkomu.

Auk þess voru afhent tvenn verðlaun fyrir herferðir á samfélagsmiðlum og í sjónvarpi:

Alda Lóa Leifsdóttir: Fólkið í Eflingu

Löngu tímabær vitundarvakning um hvunndagshetjur íslensks samfélags, fólkið sem vinnur mikilvægustu störfin fyrir lægstu launin. Glæsileg framsetning þar sem persónuleikar fá að njóta sín og halda virðingu sinni undir heiðarlegum frásögnum af oft átakanlegum veruleika. Láglaunafólki gefin rödd og skömminni af fátækt skilað þangað sem hún á heima. Verkefni sem vakið hefur mikla athygli og komið af stað mikilvægri fjölmiðlaumræðu.

Alda Lóa Leifsdóttir, Sverrir Björnsson og auglýsingastofan Kontór: Líf á lægstu launum

Láglaunafólk segir sögur sínar á skemmtilegan hátt. Sýnir fram á fáránleika þess að vinna fulla vinnu en eiga samt ekki fyrir brýnustu nauðsynjum. Kemur inn á ýmsa þætti í daglegu basli láglaunafólks og undirstrikar mikilvægi þeirrar hófsömu kröfu „að fá að lifa eins og manneskja“.

Að auki var heiðurskonan Bára Halldórsdóttir heiðruð sérstaklega með titlinum „Uppljóstrari götunnar“, en Bára hefur m.a. verið virk í starfi Peppsins og unnið ómetanlegt starf með pistlum sínum, myndbandsbloggum og aktivisma, til að vekja athygli á stöðu fátækra og öryrkja.

 

2018

Mikael Torfason, RÚV fyrir útvarpsþættina “Fátækt fólk” sem fjölluðu um stöðu ólíkra hópa fólks sem býr við fátækt eða á barmi fátæktar út frá sjónarhóli fólksins sjálfs.  Mikael fær líka viðurkenningu fyrir að fylgja málinu vel eftir og vera virkur í opinberri umræðu um fátækt á Íslandi og vera öflugur talsmaður fyrir málstaðinn.

Gabríel Benjamín, Stundin fyrir blaðagreinina “Hrædd við skilningsleysi og kerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar”.  Greinin er yfirgripsmikil umfjöllun um málefni öryrkja og starfsgetumat þar sem flókið málefni er sett fram  upplýsandi og heildstæð hátt.

Alda Lóa Leifsdóttir, Fréttatímanum fær viðurkenningu annað árið röð fyrir grein sína “Vonleysið, að vera einskis virði í ofbeldisfullu kerfi”.  Í greininni eru tekin viðtöl við hóp öryrkja um starfsgetumatið eftir áhorf á myndina „I, Daniel Blake“ og umræðan sett í samhengi við persónur og söguþráð myndarinnar.   Alda Lóa fær einnig viðurkenningu fyrir að leiða saman Pepp og Bíó Paradís til þess að gera þessa umfjöllun mögulega, en úr varð gott samstarf sem skapaði þarfa umræðu um málefnið.

2017

Alda Lóa Leifsdóttir, Fréttatímanum hlaut heiðursverðlaunin Fjölmiðlaverðlaun götunnar fyrir ljósmyndir í umfjöllunum Fréttatímans um fátækt á árinu 2016 ásamt því að fá viðurkenningu fyrir greinina „Vildi að ég gæti boðið börnunum í mat”.

Áslaug Karen Jónsdóttir, Stundinni, hlaut verðlaun fyrir „Fátæku börnin” fyrir bestu blaðagreinina.

Kristjana Guðbrandsdóttir, Fréttablaðið, hlaut verðlaun fyrir bestu fyrirsögnina, „Fátækt deyr þegar draumar fá líf”

Gunnar Smári Egilsson, Fréttatíminn, hlaut verðlaun fyrir greinina „Efnahagslegt hrun ungs fólks”.