Félag einstæðra foreldra

 

Hagsmunasamtök heimilanna

Hagsmunasamtök heimilanna eru frjáls og óháð hagsmunasamtök á neytendasvði, til varnar og hagsbóta fyrir heimilin í landinu.  Tilgangur samtakanna er að veita fólkinu í landinu möguleika til að sameinast um og að taka þátt í að verja hagsmuni heimilanna með þátttöku sinni, vera talsmaður og málsvari í umræðum um hagsmuni heimilanna til skemmti og lengri tíma.  Samtökin voru stofnuð í byrjun árs 2009.

 

Hjálparstarf kirkjunnar

Hjálparstarf kirkjunnar vinnur óhátt og sjálfstætt í þágu þeirra sem líða fátækt og óréttlæti.  Stofnunin hjálpar til sjálfshjálpar og talar máli fátækra.  Markmið stofnunarinnar er að draga fram kjör þeirra sem eiga sér ekki málsvara og ýta á aðgerðir sem breyta lífsmöguleikum þeirra. Hjálparstarfið sinnir bæði verkefnum innanlands og erlendis. Þjóðkirkja Íslands stofnaði Hjálparstarf kirkjunnar árið 1970 og skipar kirkjuráð og prófastdæmin fulltrúráð stofnunarinnar sem skipar stjórn stofnunarinnar.

 

Hjálpræðisherinn

Hjálpræðisherinn sinnir líknar- og félagsþjónustu óháð þjóðerni, menningu eða trú einstaklingsins með því að metta soltna maga, vinna að sjálfsvirðingu einstaklingsins og segja frá kærleika Guðs.   Starfsstöðvar eru í Reykjavík, Reykjanesbæ og á Akureyri.  Hertex er nytjamarkaður félagsins. Hjálpræðisherinn tók til starfa á Íslandi 1895.

 

Kærleiksþjónusta kirkjunnar

Kærleiksþjónusta kirkjunnar er rauði þráðurinn í starfi Þjóðkirkjunnar.  Hjálparstarfið fer fram bæði innanlands og erlendis, innan söfnuða, á stofnunum og við einstaka hópa.  Hjálparstarfið er bæði beint, í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar eða með öðrum félögum.  Þjóðkirkjan er evangelísk-lúthersk kirkja, sem er frjálst og sjálfstætt trúfélag sem starfar um allt land og er opin öllum, allir eiga aðgang að þjónustu hennar og eru ekki krafðir um trúarafstöðu.

 

Samhjálp

Samhjálp rekur meðferðarheimilið Hlaðgerðarkot, áfangaheimilin Brú og Spor og áfanga- og stuðningsheimilið M18 og Kaffistofu Samhjálpar, göngudeild og nytjamarkað Samhjálpar.  Markmið Samhjálpar er að veita bjargir til þeirra einstaklinga sem hafa farið halloka í lífinu, vegna sjúkdóma, fátæktar eða annarra samfélagslegra vandamála, og með því að stuðla að velferð og sjálfsbjörg þeirra.   Sögu Samhjálpar má rekja til 1971 þegar Georg Viðar Björnsson leitaði aðstoðar vegna áfengis- og eiturlyfjaneyslu.  Að lokinni meðferð leitaðist hann við að hjálpa gömlum félögum í gegnum samhjálp.  Mikill stuðningur kom frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu.

 

Sjálfsbjörg

Sjálfsbjörg landssamband hreyfihamlaðra (áður landssamband fatlaðra) er myndað af 12 Sjálfsbjargarfélögum út um allt land.  Hlutverk Sjálfsbjargar er að vinna að fullkominni þátttöku og jafnrétti hreyfihamlaðs fólks á Íslandi og eftir atvikum annarra fatlaðra  og gæta réttinda og hagsmuna þess.  Sérstaklega skal unnið að því að tryggja hreyfihömluðum félagsmönnum sem öðrum aðgengi að mannvirkjum, umhverfi, menntun, atvinnu og upplýsingum.  Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er leiðarljós í vinnu Sjálfsbjargar.  Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra var stofnað 1959.

 

Velferðarsjóður Suðurnesja

Velferðarsjóður Suðurnesja var settur á stofn haustið 2009 til að mæta þeirri miklu þörf sem myndaðist á Suðurnesjunum í kjölfar efnahagshrunsins.  Keflavíkurkirkja hefur haft umsjón með söfnun í sjóðinn og hefur úthlutað úr honum í samvinnu við Hjálparstarf kirkjunnar.

 

Öryrkjabandalag Íslands

Öryrkjabandalag Íslands er hagsmuna- og mannréttindasamtök fatlaðs fólks.  Aðildarfélög bandalagsins eru 41 (https://www.obi.is/is/um-obi/adildarfelog-obi).  Þau eru hagsmunasamtök ólíkra fötlunarhópa, aðstandenda- og sjúklingafélög með sérþekkingu á sínu sviði og veita margskonar fræðslu og stuðning.  Markmið bandalagsins er að íslenskt þjóðfélag verði samfélag jöfnuðar og réttlætis þar sem allir einstaklingar, óháð líkamlegu og andlegu atgervi, njóti mannsæmandi lífskjara og jafnra möguleika til sjálfstæðs lífs og virkrar samfélagslegrar þátttöku.  Örykjabandalagið kemur fram fyrir hönd fatlaðs fólks gagnvart opinberum aðilum í hverskyns hagsmunamálum svo sem varðandi löggjöf, framkvæmd hennar og í dómsmálum er snerta rétt þess.

Bandalagið stofnaði eða var einn stofnenda eftirtalinna fyrirtækja og meginhluti stjórnarmanna eru fulltrúar ÖBÍ og aðildarfélaga þess:  Brynja – Hússjóður Öryrkjabandalags Íslands, Örtækni, tæknivinnustofa – ræsting, Hringsjá, náms- og starfsendurhæfing, TMF Tölvumiðstöð og Fjölmennt, símenntunar- og þekkingarmiðstöð.