Velferðarvakt EAPN birtir tillögur til aðgerða gegn fátækt

EAPN-Illu3-00.jpg

Móðursamtök EAPN hafa sett á fót Velferðarvakt (Poverty Watch) sem er ætlað að beina sjónum að raunverulegum aðstæðum fólks sem býr við fátækt. Vaktin byggir á vinnu meðlima í EUISG (European Inclusion Strategies Group), hóps sem fundar þrisvar á ári um stjórnvaldsaðgerðir, samfélagsleg úrlausnarefni, lobbýisma og aðgerðir til að vekja athygli á aðstæðum fátækra um alla Evrópu. Vinna hópsins er ráðgefandi í stefnumótun Evrópuráðsins í aðgerðum gegn fátækt og aðstoðar fulltrúa þess í að átta sig á hvert skal helst líta þegar gefin eru út tilmæli í velferðarmálum fyrir hvert aðildarríki.

Nokkrir meðlimir EUISG hópsins skiluðu skýrslu um ástand í eigin landi, en skýrslurar eru ekki aðeins byggðar á tölfræði eða opinberum tölum (þótt stuðst sé við slíkt), heldur á viðtölum við hjálparsamtök og einstaklinga sem búa við fátækt. Ein slík skýrsla er í vinnslu fyrir Ísland, en hún verður tilbúin á þessu ári og verður með í næstu samantekt.

Samantektarskýrsluna er að finna hér, og hér er stutt kynning á helstu niðurstöðunum sem kynntar voru á sérstökum kynningarfundi í Brussel 29. janúar síðastliðinn.

Hér að neðan eru 10 helstu atriðin sem fram komu í skýrslunni:

 1. Fátækt er brot á grundvallarmannréttindum og afleiðing pólitískra ákvarðana. Fólk er jaðarsett sökum fátæktar og gjarnan er álitið að staða þess sé því sjálfu að kenna. Fátækt er kerfislægt vandamál sem hægt er að uppræta með pólitískum vilja.
 2. Fátækt er enn útbreidd innan Evrópusambandsins og ekki er að sjá að hún sé á undanhaldi í öllum löndum. Neyð vex víða og ekki síst falin fátækt sem oft er erfitt að mæla með almennum greiningartækjum. Falin fátækt felst t.d. í heimilisleysi og fátækt meðal innflytjenda, kvenna og vistmanna á stofnunum.
 3. Ójöfnuður (milli fólks, landa og landsvæða) er helsti orsakavaldur fátæktar. Ójöfnuður vex milli ríkra og fátækra og ríkisstjórnum hefur víða mistekist í að koma upp öflugum jöfnunartækjum. Niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðum hefur ýmist verið haldið áfram eða viðhaldið og mikið skortir á réttláta skattadreifingu, almennilegt bóta- og lífeyriskerfi og að veita góða opinbera þjónustu fyrir alla. Mikill lífskjaramunur mælist milli dreifbýlis og þéttbýlis og sá munur virðist fara vaxandi.
 4. Sumir hópar eru í meiri hættu á að lenda í fátækt en aðrir. Börn, konur, stórar fjölskyldur, einstæðir foreldrar, ungt fólk, fólk með fatlanir, innflytjendur, Rómafólk/farandfólk, heimilislausir og þeir sem glíma við langvinnt atvinnuleysi þurfa hnitmiðaðri aðgerðir og meiri einstaklingsmiðaða aðstoð. Í sumum löndum er einnig vaxandi vandi meðal eldra fólks.
 5. Skortur á viðunandi tekjum sem duga til framfærslu er helsti vandinn, en þetta er undirstöðuatriði til þess að lifa megi með reisn. Þetta vandamál er gjarnan illmælanlegt og ekki hefur enn tekist að ná utan um það með opinberum aðgerðum.
 6. Atvinna ein og sér er ekki töfralausn gegn fátækt. Fátækt meðal vinnandi fólks er vaxandi vandamál sérstaklega þar sem stórum fyrirtækjum sem byggja á mannfjandsamlegum viðskiptamódelum og starfsháttum hefur fjölgað.
 7. Lágmarksframfærsla og bætur almannatrygginga eru ekki nægjanleg úrræði til að vernda fólk gegn fátækt. Ónægar upphæðir, háir þröskuldar og fátæktargildrur eru ekki góð leið til að fólki gangi vel að komast aftur á vinnumarkað eða taka þátt í samfélaginu. Neikvæðar skilyrðingar auka á erfiðleika fólks og veita ekki góða undirstöðu fyrir farsælan starfsferil.
 8. Skortur á húsnæði á viðráðanlegu verði (sérstaklega félagslegu húsnæði) ásamt hækkandi orku- og matarverði eru þættir sem neyða fólk til að leita mjög vafasamra og óásættanlegra úrræða. Fólk neyðist til að; steypa sér í skuldir, reiða sig á matargjafir hjálparstofnana, búa í ósamþykktu húsnæði og lenda í útburðum og heimilisleysi, lenda í lokunum á ragmagni/orkugjöfum og búa við lakari heilsu.
 9. Ójöfn tækifæri til menntunar og skert aðgengi að ýmsum menntakerfum bitnar illa á fólki á öllum aldri. Slíkt misrétti veldur því að fátækt er viðhaldið milli kynslóða. Þetta bitnar kerfisbundið á ungu fólki frá fátækari og jaðarsettum heimilum ásamt því að hindra möguleika á félagslegum hreyfanleika.
 10. Frjáls félagasamtök og grasrótarhreyfingar spila stóran þátt í að styðja, virkja og valdefla fólk sem býr við fátækt með því að veita samfélagslega þjónustu, stuðning og ráðgjöf. Víða eiga þessir aðilar nú undir högg að sækja vegna niðurskurðar, takmörkun á fjárframlögum og jafnvel skerðingu á tjáningar- og málfrelsi.

Tilnefningar til Fjölmiðlaverðlauna götunnar óskast!

Manst þú eftir framúrskarandi vandaðri og góðri fjölmiðlaumfjöllun um fátækt á Íslandi frá árinu 2018? Sendu okkur tilnefningar á peppiceland@gmail.com. Skilafrestur til 10. febrúar.

Fjölmiðlaverðlaun götunnar eru verðlaun sem afhent eru fjölmiðlafólki fyrir framúrskarandi umfjöllun um fátækt á Íslandi. Verðlaunin eru veitt fyrir alls konar fjölmiðlaefni, úr sjónvarpi, útvarpi, af vefnum sem og í prentmiðlum (dagblöðum og tímaritum).

Verðlaunin eru haldin að fyrirmynd frá systursamtökum okkar í Austurríki og er markmið þeirra fyrst og fremst að stuðla að upplýstri og vandaðri fjölmiðlaumfjöllun um fátækt. Verðlaunin eru hvatning fyrir fjölmiðlafólk til þess að fjalla af fagmennsku og virðingu um málefni fátækra en þeim er einnig ætlað að byggja brýr milli fjölmiðla og fólks sem almennt hefur ekki dagskrárvald í samfélaginu.

Þann 22. febrúar mun Pepp Ísland, samtök fólks í fátækt, standa fyrir Fjölmiðlaverðlaunum götunnar í þriðja sinn. Athöfnin fer fram í húsakynnum Hjálpræðishersins í Reykjavík í Mjódd, frá kl. 14-16.

16826141_1242663285782428_2935232494978793128_o
Verðlaunahafar Fjölmiðlaverðlauna götunnar fyrir árið 2016 fengu “Salt í grautinn”.

„Fjölmiðlaverðlaun götunnar“ afhent í Austurríki

Þann 17. desember s.l. voru hin austurrísku fjölmiðlaverðlaun götunnar, „Journalismuspreis von unten“, afhent við hátíðlega athöfn í Vín. Það eru EAPN samtökin í Austurríki, Die Armutskonferenz, sem standa að verðlaununum og eru þau fyrirmynd Fjölmiðlaverðlauna götunnar, sem EAPN og Pepp á Íslandi hafa staðið fyrir undanfarin tvö ár.

Í Austurríki eru verðlaunin veitt í fjórum flokkum; fyrir vefmiðlun, prentmiðla, útvarp og sjónvarp. Eru tveir tilnefndir í hverjum flokki, en annar af þessum tveimur  hreppir „Hvíta drekann“ fyrir þann flokk. Hvíti drekinn er táknrænn í baráttunni gegn fátækt þar í landi og hefur verðlaunagripurinn, sem hannaður er af listamanni með reynslu af fátækt, fest sig í sessi sem táknmynd austurrísku verðlaunanna. Gripurinn er því nokkurs konar áminning til verðlaunahafa um mikilvægi vandaðrar blaðamennsku í baráttunni gegn fátækt og um leið um þá þýðingu sem störf fjölmiðlafólks hafa fyrir samfélagið.

 

“Journalismuspreis von unten” verðlaunin voru afhent fyrst árið 2010. Voru þau haldin í kjölfar vinnustofu sem samtökin stóðu að til að byggja brýr milli fjölmiðla og fólks með reynslu af fátækt. Þar vann fjölmiðlafólk, fólk í fátækt (pepparar) og fræðafólk saman að því að hanna leiðarvísi að því hvernig ætti að standa að fjölmiðlaumfjöllunum um fátækt og hvernig hægt væri að nálgast efnið á faglegan hátt og með virðingu fyrir viðfangsefninu. Verðlaunin hafa síðan verið afhent árlega og fer verðlaunaafhendingin fram síðasta mánudag fyrir jól.

Pepp Ísland mun núna í febrúar afhenda Fjölmiðlaverðlaun götunnar í þriðja sinn til þess fjölmiðlafólks sem vann bestu fjölmiðlaumfjallanir um fátækt á Íslandi á árinu 2018. Ákall verður sent út vegna tilnefninga á næstu dögum.

 

Verðlaunagripurinn „hvíti drekinn“
Vinningshafarnir með dómnefndinni

Félagsskapurinn stendur uppúr

Sigfús Kristjánsson skrifar um þátttöku sína í „capacity building” fundi á vegum EAPN samtakanna sem haldinn var í Vínarborg 27. – 29. september.

Það var óneitanlega nokkuð sifjulegur félagsskapur sem fór saman í bíl til Keflavíkurflugvallar aðfaranótt miðvikudagsins 26. september. Ferðinni var heitið til Vínar með stuttri millilendingu í London. Það var þó bjart og fallegt veður sem tók við okkur þegar við komum til Vínar um kaffileytið á miðvikudeginum. Vín er falleg borg og gaman að ganga um hana ekki síst í fallegu og hlýju haustveðri eins og við fengum að upplifa.

Árla daginn eftir var svo haldið á ráðstefnu og við þrjú frá Íslandi fórum hvert á sinn stað. Ég fór á eins konar námskeið eða smiðju um kosningabaráttu og hvernig hægt er að koma samfélagslegum málum sem varða fátækt og félagslega einangrun á dagskrá í aðdraganda kosninga. Eðlilega var nokkuð fjallað um væntanlegar kosningar til Evrópuþingsins. Dagurinn fór í fræðslu og hópastarf þar sem hver hópur kynnti svo sína vinnu. Þetta var frábær dagur, gagnlegur og fróðlegur. Félagsskapurinn stóð þó upp úr og var þetta frábært tækifæri til að hitta og eiga samfélag með vinum okkar frá öðrum evrópulöndum.

Á föstudeginum var stærra þing en þá komu allir saman og var umfjöllunarfefnið stefna samtakanna til frambúðar. Þar voru líflegar umræður og dálítið krefjandi. Ég segi krefjandi því það þarf mikla einbeitingu til að hlusta og taka þátt í samræðum á ensku með fólki sem hvert hefur sinn sérstaka hreim og stundum þurfti aðstoð túlka. Niðurstaðan úr umræðunum var svo ágætt skjal sem unnið verður með áfram. Seinni part dagsins voru kynningar á starfsemi í þrem löndum það voru Finnar, Portúgalar og svo við Íslendingar sem fengum að kynna okkar starf. Ég var svo heppinn að Laufey og Ásta Dís sáu um íslensku kynninguna og ég gat því fylgst með hinum löndunum sem var afar fróðlegt.

Á laugardagsmorgninum var svo aðalfundur þar sem kosið var um menn og málefni og þakkað fyrir góð störf. Þar fékk m.a. Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar viðurkenningu fyrir sitt frábæra framlag í þágu þeirra sem samtökin standa með.

Það sem stendur upp úr eftir þennan tíma er vinátta og félagsskapur við virkilega duglegt fólk sem hvert á sínum stað er að vinna við að útrýma fátækt og félagslegri einangrun. Það er fátt eins gaman og að fá að kynnast fólki sem hefur hugsjón og ástríðu fyrir því sem það gerir og fyrir það tækifæri þakka ég. Vonandi tekst okkur að nýta það nesti sem við fengum í ferðinni til að gera enn betur í okkar störfum hér heima.

Sigfús Kristjánsson

Alþjóðlegur baráttudagur gegn fátækt: Fátækt í 100 ár

Morgunverðarfundur EAPN á Íslandi verður haldinn 17. október nk. í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt á Grandhóteli og hefst kl. 8.30

Á fundinum verður fjallað um fátækt á Íslandi á fullveldisöld og horft á stöðu þeirra sem eru fátækir og þróun hennar undanfarin 100 ár. Leitað verður svara við því hvernig það var að vera fátækur á árum áður í samanburði við seinni tíð og hvernig það er í dag.

Frummælendur koma úr ólíkum áttum, þar sem fjallað verður um fátækt frá mörgum sjónarhornum, en þeir verða þessir:

 • Stefán Pálsson, sagnfræðingur
 • Jóna S Marvinsdóttir, öryrki, ellilífeyrisþegi og fulltrúi eldri kynslóðar innan Pepp Ísland – samtaka fólks í fátækt
 • Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri nýbyggingar Kvennaathvarfs
 • Anna Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur
 • Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi og stjórnarmeðlimur í Eflingu, sem fjallar um að alast upp í fátækt í seinni tíð

Skráning fer fram á eftirfarandi tengli og er verðið 1000 kr. fyrir þá sem geta greitt.  Athugið að EAPN greiðir gjaldið fyrir þá sem búa við fátækt til að tryggja að allir sem vilja koma geti komið (hakið við „já” í liðinn um niðurfellingu gjalds).

Nauðsynlegt er að skrá sig fyrir kl. 16 mánudaginn 15. október.

Fundurinn er haldinn í samstarfi við Velferðarvaktina.

Móðursamtök EAPN funduðu í Vín

Aðalfundur móðursamtaka EAPN á Íslandi var haldinn daga 26. – 29. September í Vín, Austurríki.  Fulltrúar EAPN á Íslandi voru Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, gjaldkeri EAPN á Íslandi og Laufey Líndal Ólafsdóttir, ritari stjórnar EAPN á Íslandi, en þær eru jafnframt samhæfingarstjórar Pepp Ísland, samtök fólks í fátækt og Sigfús Kristjánsson, sem hefur nýlega tekið sæti í stjórn EAPN á Íslandi sem fulltrúi Kærleiksþjónustu kirkjunnar þar sem fundurinn skiptist í þrjá hluta.

Ásta Þórdís sat fundi Exco sem er aðalstjórn EAPN og leysti þar af formann EAPN á Íslandi Vilborgu Oddsdóttur en hún átti ekki heimangengt í þetta sinni.  Laufey sat fundi EUISG sem sér um stefnumótun samtakanna og aðhald með stjórnvöldum.  Sigfús sat fræðslunámskeið samtakanna.

 

Eftir þétta fundi í tvo daga endaði dagskráin á aðalfundi samtakanna en þar höfðu fulltrúar þriggja landa verið beðnir um að halda kynningu á ársskýrslu landssamtakanna og svara spurningum um grasrótarstarfið heima fyrir og baráttuna gegn fátækt, þar með talið fulltrúar okkar.  Hin löndin voru Finnland og Lúxemburg.

ÖBÍ höfðar mál gegn TR

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands hefur tekið ákvörðun um að höfða mál gegn Tryggingastofnun ríkisins vegna krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar, eða sk. sérstök framfærsluuppbót.

Með lögum árið 2017 var þessi bótaflokkur felldur niður hjá ellilífeyrisþegum og upphæð hans færð inn í bótaflokk sem heitir ellilífeyrir.  Með því var þessi skerðing afnumin hjá ellilífeyrisþegum.  Örorkulífeyrisþegar voru aftur á móti skildir eftir og fengu ekki þá ívilnun sem fólst í lögunum.

Breytingin var ellilífeyrisþegum verulega til hagsbóta en þar sem skerðingum öryrkja hefur ekki verið breyttt með sambærilegum hætti hafa örorkulífeyrisþegar orðið af umtalsverðum fjármunum þegar litið er til sambærilegra hópa.  Hjá mörgum þeirra getur skerðingin numið um 60.000 kr. á mánuði eða meira.

Eitt hæsta hlutfall fólks sem býr við fátækt á Íslandi er með örorkumat.  Því væri það mikilvægt skref í því að útrýma fátækt á Íslandi ef Alþingi myndi bregðast strax við og setja sérstaka framfærsluuppbót inn í bótaflokkinn tekjutryggingu, sbr. hvatningu stjórnar ÖBÍ þess efnis.

Öryrkjabandalag Íslands er eitt af aðildarfélögum EAPN á Íslandi.

sjáist nánar á vef ÖBÍ

 

Sjálfboðaliðar óskast!

Pepp á Íslandi, grasrótarheyfing EAPN á Íslandi, leitar að sjálfboðaliðum bæði fyrir reglulega þriðjudagshittinga samtakanna og út um allt land.
Á þriðjudagshittingunum koma Pepparar saman til að rjúfa félagslega einangrun, borða saman og halda fundi í baráttunni gegn fátækt.  Við tökum þátt í að berjast gegn matarsóun og fáum gefins ýmiskonar mat sem við eldum á staðnum (og gefum allt sem umfram er) og þess vegna vantar fólk sem er til í að aðstoða matráðinn okkar við matargerðina en aðallega þó við fráganginn eftir mat, annanhvern þriðjudag.
Að launum bjóðum við ókeypis máltíð og góðan félagsskap.
Best væri að fá nokkra sem skiptast á til að dreifa álagi.
Einnig vantar okkur sjálfboðaliða úr sem flestum sveitarfélögum.  Fólk sem þekkir fátækt á eigin skinni og er til í að vera með og leggja sína þekkingu og reynslu á vogarskálarnar og taka þátt í allskonar verkefnum með okkur í vetur. Í boði eru bæði stór verkefni og smá fyrir þá sem vilja og treysta sér.
Pepp á Íslandi eru grasrótarsamtök fólks sem vill berjast gegn fátækt. Okkur vantar fleiri sem glíma við fátækt til þátttöku sem og sjálfboðaliða úr röðum fólks sem hafa glímt við fátækt, fólk sem er reiðubúið að koma og taka virkan þátt í baráttunni, koma með sínar hugmyndir o.s.frv. en fyrst og fremst með því að kynna sér starf Pepp Ísland, samtaka fólks í fátækt og geta í framhaldinu verið virkir félagar og tekið þátt í þeim verkefnum á okkar vegum sem þeir vilja og geta tekið þátt í.
Allir eru velkomnir sama hver getan er.
Verkefnin geta verið allt frá því að lesa almennar fréttir og greinar og deila þeim sem okkur varðar, yfir í að fara á ráðstefnur erlendis. Næsti Pepphittingur verður þriðjudaginn 12. september á milli kl 19:00 og 22:00 og síðan á hálfsmánaðarfresti eftir það í húsnæði Hjálpræðishersins í Mjódd.
Ef þú vilt vera með getur þú mætt á þriðjudagshitting og fengið að vita meira. Þú getur einnig bókað tíma hjá samhæfingarstjóra Pepp í s: 845 1040 (skrifstofan er í húsnæði Samhjálpar í Hlíðasmára 14 á þriðju hæð) eða sent tölvupóst með fyrirspurn á peppari@internet.is
Þín er þörf, vertu með

Fjölmiðlaverðlaun götunnar veitt í annað sinn

Þann 18. maí síðastliðinn voru Fjölmiðlaverðlaun götunnar haldin í annað sinn, en verðlaunin eru hvatningarverðlaun Pepp Íslands til blaða- og fréttamanna fyrir góða og vandaða umfjöllun um fátækt í íslenskum fjölmiðlum.

Að þessu sinni urðu úrslitin sem hér segir:

Verðlaunaðar tilnefningar:

 1. Mikael Torfason – „Fátækt fólk.“ (RÚV)

Útvarpsþættir sem fjölluðu um stöðu ólíkra hópa fólks sem býr við fátækt eða á barmi fátæktar út frá sjónarhóli fólksins sjálfs. Perónuleg viðtöl og fátæku fólki gefin rödd og pláss til að tjá sig og þáttastjórnandi kannaði mál þeirra frá ýmsum hliðum. Einnig var talað við starfsfólk hjálpar- og hagsmunasamtaka sem vinna í þágu hópa sem búa við fátækt og sýnt fram á vonleysi velferðarkerfisins og þær fátæktargildrur sem það býður upp á. Mikael fær einnig viðurkenningu fyrir að fylgja málinu vel eftir og vera virkur í opinberri umræðu um fátækt á Íslandi og vera öflugur talsmaður fyrir málstaðinn.

 1. Gabríel Benjamín – „Hrædd við skilningsleysi og kerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar.“ (Stundin)

Mjög yfirgripsmikil rannsóknarblaðagrein um málefni öryrkja og starfsgetumat. Góðar og vel fram settar staðreyndir um tekjur, útgjöld og atvinnuþátttöku öryrkja, í bland við viðtöl við fjölbreyttan hóp fólks sem þarf að búa við þetta kerfi og þekkir það af eigin raun. Einnig er rætt við fagaðila um nefndastörf og skýrslur og gerður samanburður á tölulegum upplýsingum við nágrannalönd. Að auki er rætt um algengar mýtur og viðhorf samfélagsins og hvernig þessi viðhorf endurspeglast í lagasetningum og meðhöndlum á málefnum öryrkja. Mjög vel fram sett, upplýsandi og heildstæð grein um kerfi sem mikið er talað um en fæstir þekkja af eigin raun.

 1. Alda Lóa Leifsdóttir – „Vonleysið, að vera einskis virði í ofbeldisfullu kerfi“ (Fréttatíminn

Viðtal við hóp öryrkja um starfsgetumatið eftir áhorf á myndina „I, Daniel Blake“ og umræðan sett í samhengi við persónur og söguþráð myndarinnar. Mjög góð og upplýsandi umræða þar sem frásögnum viðmælenda er gefið mesta vægið. Alda Lóa fær einnig viðurkenningu fyrir að leiða saman Pepp og Bíó Paradís, en úr varð gott samstarf sem skapaði þarfa umræðu um málefnið á forsendum sem okkar hópur hefði annars verið útilokaður frá.

Aðrar tilnefningar sem hlutu viðurkenningu:

Reynir Traustason – „Íslendingar flytja úr landi til að geta lifað af framfærslu sinni“ og „Eldra fólk fast í fátæktargildru“ (Stundin)

Bragi Páll Sigurðsson og Jón Trausti Reynisson – „Niðurlægingin: Hin verst settu eru skilin eftir“ (Stundin)

Heiða Vigdís Sigfúsdóttir og Jón Trausti Reynisson – „Hjúkrunarfræðingur getur ekki séð fyrir barni án aukavinnu“ (Stundin)

Bergljót Baldursdóttir – „Húsnæðisstuðningur við aldraða minnkar“ (RÚV)

Heiða Viðgdís Sigfúsdóttir – „Lifir í gleði eftir fátæktina“ (Stundin)

Svava Jónsdóttir – „Sjálfstraustið eykst við að aðstoða aðra“ (Stundin)

Gunnar Smári Egilsson – „Millistétt í huganum, lágstétt í veskinu“ (Fréttatíminn)

Jenna Mohammed – „Fighting for a better welfare state: Kjartan Theódórsson against the Icelandic government“. (Grapevine)

Erla Björg Gunnarsdóttir – „Fátækt í forgrunni“, „Fátækt er ekki aumingjaskapur“ og „Heimilislaus í Reykjanesbæ: Lagt til að setja börnin í fóstur“ (Stöð 2/Vísir)

Inga Rún Sigurðardóttir – „Brottfall meira hjá þeim fátækari“ (mbl.is)

Fjölmiðlaverðlaun götunnar 2018

Næstkomandi föstudag verða fjölmiðlaverðlaun götunnar veitt í annað sinn af Pepp á Íslandi, grasrótarhreyfingu EAPN á Íslandi.

Verðlaunin eru veitt fjölmiðlafólki fyrir framúrskarandi umfjallanir um fátækt á Íslandi og eru allar umfjallanir metnar af sérfræðingum á því sviði, fólki sem búið hefur við fátækt.

Mikill fjöldi tilnefninga barst að þessu sinni okkur til mikillar ánægju og verður tilkynnt um niðurstöður valnefndar í húsnæði Hjálpræðishersins að Álfabakka 12 þann 18. maí klukkan tvö.

Facebookviðburður fjölmiðlaverðlauna götunnar