Í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1948 segir í 25. gr. að allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra.  Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert.

Húsnæði er þannig skilgreint sem eitt af þeim lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan einstaklinga og fjölskyldu þeirra.

Í 46. grein laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 segir: “Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.”

Félagslegt leiguhúsnæði

Í könnun Varasjóðs húsnæðismála frá 2016 koma fram að 1613 manns voru á biðlistum sveitarfélaganna eftir félagslegum íbúðum.  Lunginn af umsóknunum var frá einstaklingum (1.070) sem svarar til 66,3% umsóknanna eða einstæðum foreldrum (407). Innan við 10% umsóknanna voru frá hjónum eða sambúðarfólki. Nær 70% umsækjenda á biðlistum var að finna á höfuðborgarsvæðinu. Biðtími eftir íbúð var lengstur, 48 mánuðir hjá
Hafnarfjarðarkaupstað, þá 36 mánuðir hjá Reykjavíkurborg og Hveragerðisbæ og 30 mánuðir hjá Akureyrarkaupstað.

Ekki hafa verið settar samræmdar reglur enn þá um biðlista sveitarfélaganna eftir félagslegum íbúðum og því er erfitt að átta sig á því hver er raunveruleg þörf á félagslegum íbúðum í hverju sveitarfélagi.

Með lögum um almennar íbúðir nr. 52/2016 var hafin uppbygging Leiguheimila.  Þannig geta sveitarfélög og ríkið veitt stofnframlög til fjölga öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði þar sem húsnæðiskostnaður er í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna.  Í lögunum eru skilgreind ákveðin tekju- og eignamörk og geta leigjendur verið fólk á vinnumarkaði, námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.

Húsnæðisstuðningur

Húsnæðisstuðningur ríkis og sveitarfélaga er þríþættur.  Vaxtabætur og húsnæðisbætur eru hjá ríkinu.  Sérstakur húsnæðisstuðningur er hjá sveitarfélögum.  Settar hafa verið leiðbeinandi reglur um sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélaganna.