„Poverty is not just lack of money; it is not having the capability to realize one´s full potential as a human being.“ Amartya Sen
EAPN vinnur gegn fátækt og félagslegri einangrun. Fátækt kemur í veg fyrir að fólk geti lifað með reisn og er brot á grundvallarmannréttindum.
Í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir að allir eru bornir frjálsir og jafnir öðrum að virðingu og réttindum. Á þeim grunni skulu allir þjóðfélagsþegnar, fyrir atbeina hins opinbera eða á grundvelli alþjóðasamstarfs og í samræmi við skipulag og bjargráð hvers ríkis, eiga rétt á félagslegu öryggi og þeim efnahagslegu, félagslegu og menningarlegu réttindum sem eru nauðsynleg til þess að virðing þeirra og þroski fái notið sín. Yfirlýsingin segir að allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra. Telst þar til fæði, klæði, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagsleg þjónusta, svo og réttur til öryggis vegna atvinnuleysis, veikinda, fötlunar, fyrirvinnumissis, elli eða annars sem skorti veldur og menn geta ekki við gert. Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, hvort sem þau eru fædd innan eða utan hjónabands, skulu njóta sömu félagslegu verndar.
Margvíslegir mælikvarðar eru til á fátækt. Með mælikvörðunum er reynt að átta sig betur á fátækt, kanna orsakir fátæktar, hvað viðheldur fátækt, hverjar eru afleiðingarnar og síðast en ekki síst hvernig getum við tryggt öllum gott líf.
Algengast er að horft er á mælingu á lágtekjumörkum og skort á efnislegum gæðum. Því til viðbótar er horft á tekjujöfnuð og hversu mikil fjárhagsleg byrði húsnæðiskostnaður er fyrir heimilin.
Árið 2015 var 9,6% einstaklinga undir lágtekjumörkum á Íslandi eða 31.594 einstaklingar. Lágtekjuhlutfall er skilgreint sem það hlutfall einstaklinga sem lendir undir lágtekjumörkum. Lágtekjumörk miðast við 60% af miðgildi ráðstöfunartekna á neyslueiningu. Ráðstöfunartekjur á neyslueiningu taka mið af heildarráðstöfunartekjum heimilis og hversu margir þurfa að lifa af þeim. Lágtekjumörkin eru mælikvarðinn sem Evrópusambandið notar í 2020 áætlun sinni.
Árið 2015 voru það 5% einstaklinga sem bjuggu við skort á efnislegum gæðum á Íslandi eða 16.455 einstaklingar. Þeir teljast búa við skort á efnislegum gæðum skilgreinist af því að búa á heimili þar sem þrennt af eftirfarandi á við um:
- Hefur lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts á síðastliðnum 12 mánuðum.
- Hefur ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni.
- Hefur ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag.
- Getur ekki mætt óvæntum útgjöldum (sem voru að upphæð 160 þúsund árið 2011).
- Hefur hvorki efni á heimasíma né farsíma.
- Hefur ekki efni á sjónvarpstæki.
- Hefur ekki efni á sjónvarpstæki.
- Hefur ekki efni á bíl.
- Hefur ekki efni á að halda húsnæðinu nægjanlega heitu.
Í skýrslu Velferðarvaktarinnar um sárafátækt þar sem skoðaðar voru aðstæður þeirra sem svöruðu fjórum spurningum játandi um skort á efnislegum gæðum virðist rauði þráðurinn hjá svarendum vera erfið staða á húsnæðismarkaði, slæmt heilsufar og að búa einn eða einn með börnum. Því var bent á að allar aðgerðir til að vinna gegn fátækt og félagslegri einangrun þyrftu að huga að þessum þáttum.