Velferðarvakt EAPN birtir tillögur til aðgerða gegn fátækt

EAPN-Illu3-00.jpg

Móðursamtök EAPN hafa sett á fót Velferðarvakt (Poverty Watch) sem er ætlað að beina sjónum að raunverulegum aðstæðum fólks sem býr við fátækt. Vaktin byggir á vinnu meðlima í EUISG (European Inclusion Strategies Group), hóps sem fundar þrisvar á ári um stjórnvaldsaðgerðir, samfélagsleg úrlausnarefni, lobbýisma og aðgerðir til að vekja athygli á aðstæðum fátækra um alla Evrópu. Vinna hópsins er ráðgefandi í stefnumótun Evrópuráðsins í aðgerðum gegn fátækt og aðstoðar fulltrúa þess í að átta sig á hvert skal helst líta þegar gefin eru út tilmæli í velferðarmálum fyrir hvert aðildarríki.

Nokkrir meðlimir EUISG hópsins skiluðu skýrslu um ástand í eigin landi, en skýrslurar eru ekki aðeins byggðar á tölfræði eða opinberum tölum (þótt stuðst sé við slíkt), heldur á viðtölum við hjálparsamtök og einstaklinga sem búa við fátækt. Ein slík skýrsla er í vinnslu fyrir Ísland, en hún verður tilbúin á þessu ári og verður með í næstu samantekt.

Samantektarskýrsluna er að finna hér, og hér er stutt kynning á helstu niðurstöðunum sem kynntar voru á sérstökum kynningarfundi í Brussel 29. janúar síðastliðinn.

Hér að neðan eru 10 helstu atriðin sem fram komu í skýrslunni:

  1. Fátækt er brot á grundvallarmannréttindum og afleiðing pólitískra ákvarðana. Fólk er jaðarsett sökum fátæktar og gjarnan er álitið að staða þess sé því sjálfu að kenna. Fátækt er kerfislægt vandamál sem hægt er að uppræta með pólitískum vilja.
  2. Fátækt er enn útbreidd innan Evrópusambandsins og ekki er að sjá að hún sé á undanhaldi í öllum löndum. Neyð vex víða og ekki síst falin fátækt sem oft er erfitt að mæla með almennum greiningartækjum. Falin fátækt felst t.d. í heimilisleysi og fátækt meðal innflytjenda, kvenna og vistmanna á stofnunum.
  3. Ójöfnuður (milli fólks, landa og landsvæða) er helsti orsakavaldur fátæktar. Ójöfnuður vex milli ríkra og fátækra og ríkisstjórnum hefur víða mistekist í að koma upp öflugum jöfnunartækjum. Niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðum hefur ýmist verið haldið áfram eða viðhaldið og mikið skortir á réttláta skattadreifingu, almennilegt bóta- og lífeyriskerfi og að veita góða opinbera þjónustu fyrir alla. Mikill lífskjaramunur mælist milli dreifbýlis og þéttbýlis og sá munur virðist fara vaxandi.
  4. Sumir hópar eru í meiri hættu á að lenda í fátækt en aðrir. Börn, konur, stórar fjölskyldur, einstæðir foreldrar, ungt fólk, fólk með fatlanir, innflytjendur, Rómafólk/farandfólk, heimilislausir og þeir sem glíma við langvinnt atvinnuleysi þurfa hnitmiðaðri aðgerðir og meiri einstaklingsmiðaða aðstoð. Í sumum löndum er einnig vaxandi vandi meðal eldra fólks.
  5. Skortur á viðunandi tekjum sem duga til framfærslu er helsti vandinn, en þetta er undirstöðuatriði til þess að lifa megi með reisn. Þetta vandamál er gjarnan illmælanlegt og ekki hefur enn tekist að ná utan um það með opinberum aðgerðum.
  6. Atvinna ein og sér er ekki töfralausn gegn fátækt. Fátækt meðal vinnandi fólks er vaxandi vandamál sérstaklega þar sem stórum fyrirtækjum sem byggja á mannfjandsamlegum viðskiptamódelum og starfsháttum hefur fjölgað.
  7. Lágmarksframfærsla og bætur almannatrygginga eru ekki nægjanleg úrræði til að vernda fólk gegn fátækt. Ónægar upphæðir, háir þröskuldar og fátæktargildrur eru ekki góð leið til að fólki gangi vel að komast aftur á vinnumarkað eða taka þátt í samfélaginu. Neikvæðar skilyrðingar auka á erfiðleika fólks og veita ekki góða undirstöðu fyrir farsælan starfsferil.
  8. Skortur á húsnæði á viðráðanlegu verði (sérstaklega félagslegu húsnæði) ásamt hækkandi orku- og matarverði eru þættir sem neyða fólk til að leita mjög vafasamra og óásættanlegra úrræða. Fólk neyðist til að; steypa sér í skuldir, reiða sig á matargjafir hjálparstofnana, búa í ósamþykktu húsnæði og lenda í útburðum og heimilisleysi, lenda í lokunum á ragmagni/orkugjöfum og búa við lakari heilsu.
  9. Ójöfn tækifæri til menntunar og skert aðgengi að ýmsum menntakerfum bitnar illa á fólki á öllum aldri. Slíkt misrétti veldur því að fátækt er viðhaldið milli kynslóða. Þetta bitnar kerfisbundið á ungu fólki frá fátækari og jaðarsettum heimilum ásamt því að hindra möguleika á félagslegum hreyfanleika.
  10. Frjáls félagasamtök og grasrótarhreyfingar spila stóran þátt í að styðja, virkja og valdefla fólk sem býr við fátækt með því að veita samfélagslega þjónustu, stuðning og ráðgjöf. Víða eiga þessir aðilar nú undir högg að sækja vegna niðurskurðar, takmörkun á fjárframlögum og jafnvel skerðingu á tjáningar- og málfrelsi.

Alþingi setji reglur um fjárhagsaðstoð

Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp félags- og jafnréttismálaráðherra um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna.  Fá lög skipta þá sem búa við fátækt og félagslega einangrun meira máli en sá lagabálkur.  Því hefur EAPN á Íslandi skilað inn umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Í frumvarpinu má finna margvíslega réttarbót í þágu þeirra sem búa við fátækt og félagslega einangrun en skv. tölum Hagstofunnar frá 2015 var talið að 5% Íslendinga byggju við skort á efnislegum gæðum eða rúmlega sextán þúsund Íslendingar.

Í umsögninni bendir EAPN á Íslandi þó á mikilvægi þess að ráðuneytinu verði ætlað að leiðbeina sveitarfélögunum um hvernig eigi að útfæra þá þjónustu sem lögin skylda sveitarfélögin til að bjóða.  Má þar nefna notendasamráð og meðferð umsókna um félagslegt húsnæði.

Stærsti gallinn við frumvarpið er þó að ekkert er fjallað í því um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sem er síðasta “stoppistöðin” í velferðarkerfinu. Markmið fjárhagsaðstoðar er að styðja tímabundið við einstakling og fjölskyldu hans fjárhagslega með lágmarksframfærslu. Þannig má líta á að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem íslenska lágmarksframfærsluviðmiðið.

Upphæðir geta verið mjög mismunandi, án sýnilegs rökstuðnings. Dæmi um þetta er að árið 2017 greiddi Reykjanesbær 141.633 kr. til einstaklings í fjárhagsaðstoð, Sandgerðisbær og Garður 153.672 kr., á meðan einstaklingur sem býr í sveitarfélaginu Vogum fær 136.836 kr. á mánuði í fjárhagsaðstoð. Allt eru þetta sveitarfélög á Suðurnesjum. Sandgerðisbær, Garður og Voga mynda auk þess saman eitt félagsþjónustusvæði. Stuðningur við fjölskyldur barna sem búa við fátækt og félagslega einangrun virðist einnig vera mismunandi, hvort sem um er að ræða upphæðir eða hvað er talið til tekna. Sama má segja um frístundastyrkinn, sem getur skipt verulegu máli fyrir þátttöku barna í frístundum sem búa við fátækt og félagslega einangrun.

Í umsögninni bendir EAPN á Íslandi á að erfitt er að sjá hvernig þetta getur staðist 65. gr. Stjórnarskrár Íslands þar sem segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.” né 1. mgr. 76. gr. Stjórnarskrár Íslands þar sem segir: “Öllum sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.”

Þannig eigi Alþingi að setja skýrar reglur og ekki sé hægt að vísa ábyrgðinni á sveitarfélögin.

EAPN á Íslandi skorar því á Alþingi til að setja skýrar reglur um lágmarksframfærslu svo mannréttindi fólks sem býr við fátækt og félagslega einangrun verði tryggð á Íslandi. Jafnframt verði settar reglur um skilgreind þátttökuviðmið sem tryggja að samfélagið gefi öllum skýr skilaboð um að öllu fólki sé tryggt tækifæri til þátttöku og að búist sé við þátttöku allra í samræmi við tillögur í skýrslunni Farsæld. Baráttan gegn fátækt á Íslandi.