Alþjóðlegur baráttudagur gegn fátækt: Fátækt í 100 ár

Morgunverðarfundur EAPN á Íslandi verður haldinn 17. október nk. í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn fátækt á Grandhóteli og hefst kl. 8.30

Á fundinum verður fjallað um fátækt á Íslandi á fullveldisöld og horft á stöðu þeirra sem eru fátækir og þróun hennar undanfarin 100 ár. Leitað verður svara við því hvernig það var að vera fátækur á árum áður í samanburði við seinni tíð og hvernig það er í dag.

Frummælendur koma úr ólíkum áttum, þar sem fjallað verður um fátækt frá mörgum sjónarhornum, en þeir verða þessir:

  • Stefán Pálsson, sagnfræðingur
  • Jóna S Marvinsdóttir, öryrki, ellilífeyrisþegi og fulltrúi eldri kynslóðar innan Pepp Ísland – samtaka fólks í fátækt
  • Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri nýbyggingar Kvennaathvarfs
  • Anna Pétursdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur
  • Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi og stjórnarmeðlimur í Eflingu, sem fjallar um að alast upp í fátækt í seinni tíð

Skráning fer fram á eftirfarandi tengli og er verðið 1000 kr. fyrir þá sem geta greitt.  Athugið að EAPN greiðir gjaldið fyrir þá sem búa við fátækt til að tryggja að allir sem vilja koma geti komið (hakið við „já” í liðinn um niðurfellingu gjalds).

Nauðsynlegt er að skrá sig fyrir kl. 16 mánudaginn 15. október.

Fundurinn er haldinn í samstarfi við Velferðarvaktina.

Móðursamtök EAPN funduðu í Vín

Aðalfundur móðursamtaka EAPN á Íslandi var haldinn daga 26. – 29. September í Vín, Austurríki.  Fulltrúar EAPN á Íslandi voru Ásta Þórdís Skjalddal Guðjónsdóttir, gjaldkeri EAPN á Íslandi og Laufey Líndal Ólafsdóttir, ritari stjórnar EAPN á Íslandi, en þær eru jafnframt samhæfingarstjórar Pepp Ísland, samtök fólks í fátækt og Sigfús Kristjánsson, sem hefur nýlega tekið sæti í stjórn EAPN á Íslandi sem fulltrúi Kærleiksþjónustu kirkjunnar þar sem fundurinn skiptist í þrjá hluta.

Ásta Þórdís sat fundi Exco sem er aðalstjórn EAPN og leysti þar af formann EAPN á Íslandi Vilborgu Oddsdóttur en hún átti ekki heimangengt í þetta sinni.  Laufey sat fundi EUISG sem sér um stefnumótun samtakanna og aðhald með stjórnvöldum.  Sigfús sat fræðslunámskeið samtakanna.

 

Eftir þétta fundi í tvo daga endaði dagskráin á aðalfundi samtakanna en þar höfðu fulltrúar þriggja landa verið beðnir um að halda kynningu á ársskýrslu landssamtakanna og svara spurningum um grasrótarstarfið heima fyrir og baráttuna gegn fátækt, þar með talið fulltrúar okkar.  Hin löndin voru Finnland og Lúxemburg.

ÖBÍ höfðar mál gegn TR

Stjórn Öryrkjabandalags Íslands hefur tekið ákvörðun um að höfða mál gegn Tryggingastofnun ríkisins vegna krónu-á-móti-krónu skerðingarinnar, eða sk. sérstök framfærsluuppbót.

Með lögum árið 2017 var þessi bótaflokkur felldur niður hjá ellilífeyrisþegum og upphæð hans færð inn í bótaflokk sem heitir ellilífeyrir.  Með því var þessi skerðing afnumin hjá ellilífeyrisþegum.  Örorkulífeyrisþegar voru aftur á móti skildir eftir og fengu ekki þá ívilnun sem fólst í lögunum.

Breytingin var ellilífeyrisþegum verulega til hagsbóta en þar sem skerðingum öryrkja hefur ekki verið breyttt með sambærilegum hætti hafa örorkulífeyrisþegar orðið af umtalsverðum fjármunum þegar litið er til sambærilegra hópa.  Hjá mörgum þeirra getur skerðingin numið um 60.000 kr. á mánuði eða meira.

Eitt hæsta hlutfall fólks sem býr við fátækt á Íslandi er með örorkumat.  Því væri það mikilvægt skref í því að útrýma fátækt á Íslandi ef Alþingi myndi bregðast strax við og setja sérstaka framfærsluuppbót inn í bótaflokkinn tekjutryggingu, sbr. hvatningu stjórnar ÖBÍ þess efnis.

Öryrkjabandalag Íslands er eitt af aðildarfélögum EAPN á Íslandi.

sjáist nánar á vef ÖBÍ

 

Sjálfboðaliðar óskast!

Pepp á Íslandi, grasrótarheyfing EAPN á Íslandi, leitar að sjálfboðaliðum bæði fyrir reglulega þriðjudagshittinga samtakanna og út um allt land.
Á þriðjudagshittingunum koma Pepparar saman til að rjúfa félagslega einangrun, borða saman og halda fundi í baráttunni gegn fátækt.  Við tökum þátt í að berjast gegn matarsóun og fáum gefins ýmiskonar mat sem við eldum á staðnum (og gefum allt sem umfram er) og þess vegna vantar fólk sem er til í að aðstoða matráðinn okkar við matargerðina en aðallega þó við fráganginn eftir mat, annanhvern þriðjudag.
Að launum bjóðum við ókeypis máltíð og góðan félagsskap.
Best væri að fá nokkra sem skiptast á til að dreifa álagi.
Einnig vantar okkur sjálfboðaliða úr sem flestum sveitarfélögum.  Fólk sem þekkir fátækt á eigin skinni og er til í að vera með og leggja sína þekkingu og reynslu á vogarskálarnar og taka þátt í allskonar verkefnum með okkur í vetur. Í boði eru bæði stór verkefni og smá fyrir þá sem vilja og treysta sér.
Pepp á Íslandi eru grasrótarsamtök fólks sem vill berjast gegn fátækt. Okkur vantar fleiri sem glíma við fátækt til þátttöku sem og sjálfboðaliða úr röðum fólks sem hafa glímt við fátækt, fólk sem er reiðubúið að koma og taka virkan þátt í baráttunni, koma með sínar hugmyndir o.s.frv. en fyrst og fremst með því að kynna sér starf Pepp Ísland, samtaka fólks í fátækt og geta í framhaldinu verið virkir félagar og tekið þátt í þeim verkefnum á okkar vegum sem þeir vilja og geta tekið þátt í.
Allir eru velkomnir sama hver getan er.
Verkefnin geta verið allt frá því að lesa almennar fréttir og greinar og deila þeim sem okkur varðar, yfir í að fara á ráðstefnur erlendis. Næsti Pepphittingur verður þriðjudaginn 12. september á milli kl 19:00 og 22:00 og síðan á hálfsmánaðarfresti eftir það í húsnæði Hjálpræðishersins í Mjódd.
Ef þú vilt vera með getur þú mætt á þriðjudagshitting og fengið að vita meira. Þú getur einnig bókað tíma hjá samhæfingarstjóra Pepp í s: 845 1040 (skrifstofan er í húsnæði Samhjálpar í Hlíðasmára 14 á þriðju hæð) eða sent tölvupóst með fyrirspurn á peppari@internet.is
Þín er þörf, vertu með

Fjölmiðlaverðlaun götunnar veitt í annað sinn

Þann 18. maí síðastliðinn voru Fjölmiðlaverðlaun götunnar haldin í annað sinn, en verðlaunin eru hvatningarverðlaun Pepp Íslands til blaða- og fréttamanna fyrir góða og vandaða umfjöllun um fátækt í íslenskum fjölmiðlum.

Að þessu sinni urðu úrslitin sem hér segir:

Verðlaunaðar tilnefningar:

  1. Mikael Torfason – „Fátækt fólk.“ (RÚV)

Útvarpsþættir sem fjölluðu um stöðu ólíkra hópa fólks sem býr við fátækt eða á barmi fátæktar út frá sjónarhóli fólksins sjálfs. Perónuleg viðtöl og fátæku fólki gefin rödd og pláss til að tjá sig og þáttastjórnandi kannaði mál þeirra frá ýmsum hliðum. Einnig var talað við starfsfólk hjálpar- og hagsmunasamtaka sem vinna í þágu hópa sem búa við fátækt og sýnt fram á vonleysi velferðarkerfisins og þær fátæktargildrur sem það býður upp á. Mikael fær einnig viðurkenningu fyrir að fylgja málinu vel eftir og vera virkur í opinberri umræðu um fátækt á Íslandi og vera öflugur talsmaður fyrir málstaðinn.

  1. Gabríel Benjamín – „Hrædd við skilningsleysi og kerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar.“ (Stundin)

Mjög yfirgripsmikil rannsóknarblaðagrein um málefni öryrkja og starfsgetumat. Góðar og vel fram settar staðreyndir um tekjur, útgjöld og atvinnuþátttöku öryrkja, í bland við viðtöl við fjölbreyttan hóp fólks sem þarf að búa við þetta kerfi og þekkir það af eigin raun. Einnig er rætt við fagaðila um nefndastörf og skýrslur og gerður samanburður á tölulegum upplýsingum við nágrannalönd. Að auki er rætt um algengar mýtur og viðhorf samfélagsins og hvernig þessi viðhorf endurspeglast í lagasetningum og meðhöndlum á málefnum öryrkja. Mjög vel fram sett, upplýsandi og heildstæð grein um kerfi sem mikið er talað um en fæstir þekkja af eigin raun.

  1. Alda Lóa Leifsdóttir – „Vonleysið, að vera einskis virði í ofbeldisfullu kerfi“ (Fréttatíminn

Viðtal við hóp öryrkja um starfsgetumatið eftir áhorf á myndina „I, Daniel Blake“ og umræðan sett í samhengi við persónur og söguþráð myndarinnar. Mjög góð og upplýsandi umræða þar sem frásögnum viðmælenda er gefið mesta vægið. Alda Lóa fær einnig viðurkenningu fyrir að leiða saman Pepp og Bíó Paradís, en úr varð gott samstarf sem skapaði þarfa umræðu um málefnið á forsendum sem okkar hópur hefði annars verið útilokaður frá.

Aðrar tilnefningar sem hlutu viðurkenningu:

Reynir Traustason – „Íslendingar flytja úr landi til að geta lifað af framfærslu sinni“ og „Eldra fólk fast í fátæktargildru“ (Stundin)

Bragi Páll Sigurðsson og Jón Trausti Reynisson – „Niðurlægingin: Hin verst settu eru skilin eftir“ (Stundin)

Heiða Vigdís Sigfúsdóttir og Jón Trausti Reynisson – „Hjúkrunarfræðingur getur ekki séð fyrir barni án aukavinnu“ (Stundin)

Bergljót Baldursdóttir – „Húsnæðisstuðningur við aldraða minnkar“ (RÚV)

Heiða Viðgdís Sigfúsdóttir – „Lifir í gleði eftir fátæktina“ (Stundin)

Svava Jónsdóttir – „Sjálfstraustið eykst við að aðstoða aðra“ (Stundin)

Gunnar Smári Egilsson – „Millistétt í huganum, lágstétt í veskinu“ (Fréttatíminn)

Jenna Mohammed – „Fighting for a better welfare state: Kjartan Theódórsson against the Icelandic government“. (Grapevine)

Erla Björg Gunnarsdóttir – „Fátækt í forgrunni“, „Fátækt er ekki aumingjaskapur“ og „Heimilislaus í Reykjanesbæ: Lagt til að setja börnin í fóstur“ (Stöð 2/Vísir)

Inga Rún Sigurðardóttir – „Brottfall meira hjá þeim fátækari“ (mbl.is)

Fjölmiðlaverðlaun götunnar 2018

Næstkomandi föstudag verða fjölmiðlaverðlaun götunnar veitt í annað sinn af Pepp á Íslandi, grasrótarhreyfingu EAPN á Íslandi.

Verðlaunin eru veitt fjölmiðlafólki fyrir framúrskarandi umfjallanir um fátækt á Íslandi og eru allar umfjallanir metnar af sérfræðingum á því sviði, fólki sem búið hefur við fátækt.

Mikill fjöldi tilnefninga barst að þessu sinni okkur til mikillar ánægju og verður tilkynnt um niðurstöður valnefndar í húsnæði Hjálpræðishersins að Álfabakka 12 þann 18. maí klukkan tvö.

Facebookviðburður fjölmiðlaverðlauna götunnar

 

EAPN opnar skrifstofu

EAPN á Íslandi er komið með skrifstofuaðstöðu í húsnæði Samhjálpar, Hlíðasmára 14, þriðju hæð, 201 Kópavogi.   Opið verður mánudag og miðvikudag frá kl. 10 til 14.

Einnig er hægt að hafa samband í síma 8454010 eða með því að senda póst á eapn@eapn.is

 

Alþingi setji reglur um fjárhagsaðstoð

Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp félags- og jafnréttismálaráðherra um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna.  Fá lög skipta þá sem búa við fátækt og félagslega einangrun meira máli en sá lagabálkur.  Því hefur EAPN á Íslandi skilað inn umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Í frumvarpinu má finna margvíslega réttarbót í þágu þeirra sem búa við fátækt og félagslega einangrun en skv. tölum Hagstofunnar frá 2015 var talið að 5% Íslendinga byggju við skort á efnislegum gæðum eða rúmlega sextán þúsund Íslendingar.

Í umsögninni bendir EAPN á Íslandi þó á mikilvægi þess að ráðuneytinu verði ætlað að leiðbeina sveitarfélögunum um hvernig eigi að útfæra þá þjónustu sem lögin skylda sveitarfélögin til að bjóða.  Má þar nefna notendasamráð og meðferð umsókna um félagslegt húsnæði.

Stærsti gallinn við frumvarpið er þó að ekkert er fjallað í því um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sem er síðasta “stoppistöðin” í velferðarkerfinu. Markmið fjárhagsaðstoðar er að styðja tímabundið við einstakling og fjölskyldu hans fjárhagslega með lágmarksframfærslu. Þannig má líta á að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem íslenska lágmarksframfærsluviðmiðið.

Upphæðir geta verið mjög mismunandi, án sýnilegs rökstuðnings. Dæmi um þetta er að árið 2017 greiddi Reykjanesbær 141.633 kr. til einstaklings í fjárhagsaðstoð, Sandgerðisbær og Garður 153.672 kr., á meðan einstaklingur sem býr í sveitarfélaginu Vogum fær 136.836 kr. á mánuði í fjárhagsaðstoð. Allt eru þetta sveitarfélög á Suðurnesjum. Sandgerðisbær, Garður og Voga mynda auk þess saman eitt félagsþjónustusvæði. Stuðningur við fjölskyldur barna sem búa við fátækt og félagslega einangrun virðist einnig vera mismunandi, hvort sem um er að ræða upphæðir eða hvað er talið til tekna. Sama má segja um frístundastyrkinn, sem getur skipt verulegu máli fyrir þátttöku barna í frístundum sem búa við fátækt og félagslega einangrun.

Í umsögninni bendir EAPN á Íslandi á að erfitt er að sjá hvernig þetta getur staðist 65. gr. Stjórnarskrár Íslands þar sem segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.” né 1. mgr. 76. gr. Stjórnarskrár Íslands þar sem segir: “Öllum sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.”

Þannig eigi Alþingi að setja skýrar reglur og ekki sé hægt að vísa ábyrgðinni á sveitarfélögin.

EAPN á Íslandi skorar því á Alþingi til að setja skýrar reglur um lágmarksframfærslu svo mannréttindi fólks sem býr við fátækt og félagslega einangrun verði tryggð á Íslandi. Jafnframt verði settar reglur um skilgreind þátttökuviðmið sem tryggja að samfélagið gefi öllum skýr skilaboð um að öllu fólki sé tryggt tækifæri til þátttöku og að búist sé við þátttöku allra í samræmi við tillögur í skýrslunni Farsæld. Baráttan gegn fátækt á Íslandi.

Fjárhagsaðstoð og mannréttindabrot

Vilborg Oddsdóttir skrifar: Hvert leitar fólk sem býr við fátækt og félagslega einangrun og getur ekki framfleytt sér eða fjölskyldu sinni? Síðasta „stoppistöðin“ í velferðarkerfinu er fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sem sveitarfélög eru skyldug til að vera með samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Hverju og einu sveitarfélagi er heimilt að setja sínar eigin reglur um fjárhagsaðstoðina og eru upphæðir mjög mismunandi, án sýnilegs rökstuðnings. Árið 2017 greiddi Reykjavík hæstu upphæðina, allt að 184.833 kr. á mánuði til einstaklings 18 ára og eldri. Önnur sveitarfélög greiddu minna og gat munað tugum þúsunda á milli sveitarfélaga, jafnvel hjá sveitarfélögum sem mynduðu saman eitt félagsþjónustusvæði. Í reglum sveitarfélaganna er fjárhagsaðstoðin ekki einstaklingsbundin þegar kemur að hjónum og sambúðarfólki og tekjur maka skerða harkalega rétt til fjárhagsaðstoðar.

Stuðningur við fjölskyldu barna sem búa við fátækt og félagslega einangrun er einnig mjög mismunandi, hvort sem um er að ræða upphæðir eða hvað er talið til tekna. Sama má segja um frístundastyrk sem getur skipt verulegu máli fyrir þátttöku barna í frístundum sem búa við fátækt og félagslega einangrun.

Erfitt er að sjá hvernig þetta getur staðist ákvæði stjórnarskrár Íslands þar sem kveðið er á um að ekki má mismuna fólki og að öllum skal tryggður réttur í lögum til aðstoðar vegna m.a. örbirgðar. Í svokölluðum öryrkjadómum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að einstaklingur, sem þess þarf, skuli eiga beinan og raunhæfan rétt til aðstoðar frá ríkinu og að sá réttur nýtur verndar stjórnarskrárinnar.

Alþingi ber að setja lög sem tryggja öllum lágmarksrétt. Ekki er ásættanlegt að vísa ábyrgðinni á sveitarfélög. Því er það miður að í frumvarpi félags- og jafnréttismálaráðherra um félagsþjónustu sveitarfélaga sem nú liggur fyrir Alþingi skuli ekki vera skýr ákvæði um lágmarksframfærslu.

EAPN á Íslandi skorar því á velferðarnefnd Alþingis að leggja til nauðsynlegar breytingar svo að mannréttindi fólks sem býr við fátækt og félagslega einangrun verði tryggð á Íslandi.

Höfundur er formaður EAPN á Íslandi og félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar

(Greinin birtist fyrst 5. febrúar 2018 í Fréttablaðinu)

Vilborg fékk fálkaorðu

Vilborg Oddsdóttir, formaður EAPN á Íslandi og félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar fékk á nýársdag heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu frá for­seta Íslands, Guðna Th. Jó­hann­es­syni.  Hún var sæmd riddarakrossi fyr­ir fram­lag til sam­hjálp­ar og bar­áttu gegn fá­tækt í sam­fé­lag­inu.

Tólf Íslendingar fengu heiðursmerkið en þeir voru auk Vilborgar:

1. Al­bert Al­berts­son fyrr­ver­andi aðstoðarfor­stjóri Hita­veitu Suður­nesja, Reykja­nes­bæ, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag á vett­vangi jarðhita­nýt­ing­ar

2. Álfrún Gunn­laugs­dótt­ir rit­höf­und­ur og fyrr­ver­andi pró­fess­or, Seltjarn­ar­nesi, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til ís­lenskra bók­mennta og kennslu bók­mennta á há­skóla­stigi

3. Bryn­hild­ur Guðjóns­dótt­ir leik­kona, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til ís­lenskr­ar leik­list­ar

4. Gunn­ar V. Andrés­son ljós­mynd­ari, Mos­fells­bæ, ridd­ara­kross fyr­ir störf á vett­vangi ís­lenska fjöl­miðla

5. Hall­dóra Björns­dótt­ir íþrótta­fræðing­ur, Mos­fells­bæ, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til heilsu­vernd­ar og lýðheilsu

6. Hauk­ur Ágústs­son fyrr­ver­andi skóla­stjóri, Ak­ur­eyri, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag á vett­vangi skóla­mála og fjar­kennslu

7. Lár­us Blön­dal for­seti Íþrótta- og Ólymp­íu­sam­bands Íslands, Garðabæ, ridd­ara­kross fyr­ir störf í þágu íþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar

8. Ólaf­ur Dýr­munds­son fyrr­ver­andi ráðunaut­ur, Reykja­vík, ridd­ara­kross fyr­ir störf á vett­vangi ís­lensks land­búnaðar

9. Ólöf Nor­dal mynd­list­armaður, Reykja­vík, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til ís­lenskr­ar mynd­list­ar

10. Sig­fús Krist­ins­son tré­smíðameist­ari, Sel­fossi, ridd­ara­kross fyr­ir fram­lag til at­vinnu­lífs og iðnmennta í heima­byggð

11. Sigþrúður Guðmunds­dótt­ir for­stöðukona Kvenna­at­hvarfs, Reykja­vík, ridd­ara­kross fyr­ir störf að vel­ferð og ör­yggi kvenna