Fjölmiðlaverðlaun götunnar verða að þessu sinni haldin í safnaðarheimili Grensáskirkju föstudaginn 13. mars. Dómnefndin, sem eingöngu er skipuð fólki með reynslu af fátækt, vinnur nú hörðum höndum að því að leggja lokahönd á tilnefningalistann og mun hann liggja fyrir á næstu dögum.

Einungis koma til greina umfjallanir sem fjalla á faglegan, vandaðan og virðingarfullan hátt um fátækt og því er margt að skoða í hverri og einni tilnefningu. Allar tilnefningar eru skoðaðar og metnar með eftirfarandi spurningar í huga:

1. Hvernig kemur fólk sem upplifir fátækt fyrir í umfjölluninni?

2. Er frásögnin af fátækt heiðarleg, fordómalaus og sett fram af þekkingu og skilningi?

3. Eru efnistökin/fréttapunkturinn áhugaverð og koma til skila mikilvægum upplýsingum eða skilaboðum?

4. Eru dýpri útskýringar og bakgrunnsupplýsingar um vanda fólks og kerfislægar aðstæður hluti af umfjölluninni?

5. Er orðfæri og orðnotkun umfjöllunarinnar faglegt og virðingarfullt gagnvart umfjöllunarefninu?

6. Hvernig er myndnotkunin og hvað gerir hún fyrir umfjöllunarefnið?

7. Viðbótarspurningar: Hvernig leið mér við lestur/hlustun/áhorf á umfjölluninni? Hvernig tilfinningu fékk ég fyrir umfjöllunarefninu? Lærði ég eitthvað nýtt? Gat ég speglað mig í henni og talar hún mínu máli?

Við hlökkum til að verðlauna framúrskarandi blaðamenn fyrir störf sín í þágu málstaðarins og bjóðum ykkur öll velkomin að koma og fagna með okkur. Veitingar verða í boði, góð og opin stemmning og eflaust eitthvað fleira skemmtilegt.

Sjáum vonandi sem flest ykkar!

Hér má nálgast upplýsingar um viðburðinn á Facebook