Aðalfundur EAPN á Íslandi verður haldinn í Grensáskirkju 8. apríl n.k. kl 14:30.
Fundurinn hefst á erindi frá Kolbeini H Stefánssyni, en hann mun kynna nýútkomna skýrslu sína um lífskjör og fátækt meðal barna á Íslandi á árunum 2014 til 2016. Fundargestum mun að erindinu loknu gefast tækifæri til að spyrja Kolbein spurninga og spjalla um niðurstöður skýrslunnar áður en hefðbundin aðalfundardagskrá tekur við.
Fundurinn er öllum opinn en atkvæðarétt á fundinum hafa aðeins 5 fulltrúar hvers aðildarfélags. Fyrir liggur ein tillaga um breytingu á lögum félagsins (sjá að neðan) sem kjósa þarf um. Lagabreytingunni er ætlað að opna á möguleika á því að fleiri sem starfa með sömu markmið geti sótt um aðild að samtökunum og starfað með okkur í baráttunni gegn fátækt.
Dagskrá aðalfundar:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara.
- Skýrsla stjórnar lögð fram til samþykktar.
Þá skulu þær nefndir sem starfa í þágu samtakanna skila skýrslu. - Reikningar liðins starfsárs lagðir fram til samþykktar.
- Fjárhags- og starfsáætlun 2019 kynnt og lögð fram til samþykktar.
- Lagabreytingar. Tillaga að breytingu á 6. gr laga hefur verið lögð fram.
- Stjórnarkjör.
- Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga til eins árs.
- Ákvörðun árgjalds.
- Önnur mál.
Með kveðju frá stjórn EAPN á Íslandi.
Lagabreytingartillaga, lögð fram á aðalfundi EAPN á Íslandi 8. apríl 2019
Um er að ræða 6. gr laga sem fjallar um hverjir geta átt aðild að samtökunum en svona hljómar greinin í núgildandi lögum:
6.gr.
„Félagsaðild er opin öllum félögum og félagasamtökum er starfa innan þriðja geirans og grasrótarsamtökum, sem hafa á stefnuskrá sinni að vinna að málefnum fátækra og þeirra sem eru félagslega einangraðir.”
Tillaga að breytingu á 6. gr laganna hljómar svo:
6 .gr.
„Félagsaðild er opin öllum félögum og félagasamtökum sem og einstaklingum er starfa að staðaldri innan þriðja geirans og þeim grasrótarsamtökum, sem hafa á stefnuskrá sinni að vinna að málefnum fátækra og þeirra sem eru félagslega einangraðir.”
Ennfremur þyrfti að taka fyrir dagskrárbreytingu aðalfundar þar sem bæta þyrfti inn í dagskrána lið um að aðildarumsóknir séu kynntar, teknar fyrir og samþykktar – verði breytingartillagan að lögum.