Þann 18. maí síðastliðinn voru Fjölmiðlaverðlaun götunnar haldin í annað sinn, en verðlaunin eru hvatningarverðlaun Pepp Íslands til blaða- og fréttamanna fyrir góða og vandaða umfjöllun um fátækt í íslenskum fjölmiðlum.

Að þessu sinni urðu úrslitin sem hér segir:

Verðlaunaðar tilnefningar:

  1. Mikael Torfason – „Fátækt fólk.“ (RÚV)

Útvarpsþættir sem fjölluðu um stöðu ólíkra hópa fólks sem býr við fátækt eða á barmi fátæktar út frá sjónarhóli fólksins sjálfs. Perónuleg viðtöl og fátæku fólki gefin rödd og pláss til að tjá sig og þáttastjórnandi kannaði mál þeirra frá ýmsum hliðum. Einnig var talað við starfsfólk hjálpar- og hagsmunasamtaka sem vinna í þágu hópa sem búa við fátækt og sýnt fram á vonleysi velferðarkerfisins og þær fátæktargildrur sem það býður upp á. Mikael fær einnig viðurkenningu fyrir að fylgja málinu vel eftir og vera virkur í opinberri umræðu um fátækt á Íslandi og vera öflugur talsmaður fyrir málstaðinn.

  1. Gabríel Benjamín – „Hrædd við skilningsleysi og kerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar.“ (Stundin)

Mjög yfirgripsmikil rannsóknarblaðagrein um málefni öryrkja og starfsgetumat. Góðar og vel fram settar staðreyndir um tekjur, útgjöld og atvinnuþátttöku öryrkja, í bland við viðtöl við fjölbreyttan hóp fólks sem þarf að búa við þetta kerfi og þekkir það af eigin raun. Einnig er rætt við fagaðila um nefndastörf og skýrslur og gerður samanburður á tölulegum upplýsingum við nágrannalönd. Að auki er rætt um algengar mýtur og viðhorf samfélagsins og hvernig þessi viðhorf endurspeglast í lagasetningum og meðhöndlum á málefnum öryrkja. Mjög vel fram sett, upplýsandi og heildstæð grein um kerfi sem mikið er talað um en fæstir þekkja af eigin raun.

  1. Alda Lóa Leifsdóttir – „Vonleysið, að vera einskis virði í ofbeldisfullu kerfi“ (Fréttatíminn

Viðtal við hóp öryrkja um starfsgetumatið eftir áhorf á myndina „I, Daniel Blake“ og umræðan sett í samhengi við persónur og söguþráð myndarinnar. Mjög góð og upplýsandi umræða þar sem frásögnum viðmælenda er gefið mesta vægið. Alda Lóa fær einnig viðurkenningu fyrir að leiða saman Pepp og Bíó Paradís, en úr varð gott samstarf sem skapaði þarfa umræðu um málefnið á forsendum sem okkar hópur hefði annars verið útilokaður frá.

Aðrar tilnefningar sem hlutu viðurkenningu:

Reynir Traustason – „Íslendingar flytja úr landi til að geta lifað af framfærslu sinni“ og „Eldra fólk fast í fátæktargildru“ (Stundin)

Bragi Páll Sigurðsson og Jón Trausti Reynisson – „Niðurlægingin: Hin verst settu eru skilin eftir“ (Stundin)

Heiða Vigdís Sigfúsdóttir og Jón Trausti Reynisson – „Hjúkrunarfræðingur getur ekki séð fyrir barni án aukavinnu“ (Stundin)

Bergljót Baldursdóttir – „Húsnæðisstuðningur við aldraða minnkar“ (RÚV)

Heiða Viðgdís Sigfúsdóttir – „Lifir í gleði eftir fátæktina“ (Stundin)

Svava Jónsdóttir – „Sjálfstraustið eykst við að aðstoða aðra“ (Stundin)

Gunnar Smári Egilsson – „Millistétt í huganum, lágstétt í veskinu“ (Fréttatíminn)

Jenna Mohammed – „Fighting for a better welfare state: Kjartan Theódórsson against the Icelandic government“. (Grapevine)

Erla Björg Gunnarsdóttir – „Fátækt í forgrunni“, „Fátækt er ekki aumingjaskapur“ og „Heimilislaus í Reykjanesbæ: Lagt til að setja börnin í fóstur“ (Stöð 2/Vísir)

Inga Rún Sigurðardóttir – „Brottfall meira hjá þeim fátækari“ (mbl.is)