Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp félags- og jafnréttismálaráðherra um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna.  Fá lög skipta þá sem búa við fátækt og félagslega einangrun meira máli en sá lagabálkur.  Því hefur EAPN á Íslandi skilað inn umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaganna.

Í frumvarpinu má finna margvíslega réttarbót í þágu þeirra sem búa við fátækt og félagslega einangrun en skv. tölum Hagstofunnar frá 2015 var talið að 5% Íslendinga byggju við skort á efnislegum gæðum eða rúmlega sextán þúsund Íslendingar.

Í umsögninni bendir EAPN á Íslandi þó á mikilvægi þess að ráðuneytinu verði ætlað að leiðbeina sveitarfélögunum um hvernig eigi að útfæra þá þjónustu sem lögin skylda sveitarfélögin til að bjóða.  Má þar nefna notendasamráð og meðferð umsókna um félagslegt húsnæði.

Stærsti gallinn við frumvarpið er þó að ekkert er fjallað í því um fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sem er síðasta “stoppistöðin” í velferðarkerfinu. Markmið fjárhagsaðstoðar er að styðja tímabundið við einstakling og fjölskyldu hans fjárhagslega með lágmarksframfærslu. Þannig má líta á að fjárhagsaðstoð sveitarfélaga sem íslenska lágmarksframfærsluviðmiðið.

Upphæðir geta verið mjög mismunandi, án sýnilegs rökstuðnings. Dæmi um þetta er að árið 2017 greiddi Reykjanesbær 141.633 kr. til einstaklings í fjárhagsaðstoð, Sandgerðisbær og Garður 153.672 kr., á meðan einstaklingur sem býr í sveitarfélaginu Vogum fær 136.836 kr. á mánuði í fjárhagsaðstoð. Allt eru þetta sveitarfélög á Suðurnesjum. Sandgerðisbær, Garður og Voga mynda auk þess saman eitt félagsþjónustusvæði. Stuðningur við fjölskyldur barna sem búa við fátækt og félagslega einangrun virðist einnig vera mismunandi, hvort sem um er að ræða upphæðir eða hvað er talið til tekna. Sama má segja um frístundastyrkinn, sem getur skipt verulegu máli fyrir þátttöku barna í frístundum sem búa við fátækt og félagslega einangrun.

Í umsögninni bendir EAPN á Íslandi á að erfitt er að sjá hvernig þetta getur staðist 65. gr. Stjórnarskrár Íslands þar sem segir: „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.” né 1. mgr. 76. gr. Stjórnarskrár Íslands þar sem segir: “Öllum sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.”

Þannig eigi Alþingi að setja skýrar reglur og ekki sé hægt að vísa ábyrgðinni á sveitarfélögin.

EAPN á Íslandi skorar því á Alþingi til að setja skýrar reglur um lágmarksframfærslu svo mannréttindi fólks sem býr við fátækt og félagslega einangrun verði tryggð á Íslandi. Jafnframt verði settar reglur um skilgreind þátttökuviðmið sem tryggja að samfélagið gefi öllum skýr skilaboð um að öllu fólki sé tryggt tækifæri til þátttöku og að búist sé við þátttöku allra í samræmi við tillögur í skýrslunni Farsæld. Baráttan gegn fátækt á Íslandi.