Á síðunni Jólasveinahjálparkokkar sem fæst við að miðla smágjöfum á milli þeirra hjálparkokka sem geta séð af einhverju slíku og jólasveina sem lítið hafa til að setja í þá barnaskó sem finna má í gluggum landsmanna. Á síðunni má finna margar beiðnir um skógjafir en í ár hafa einnig bæst við beiðnir um jólagjafir sem bendir til þess að neyð foreldra í fátækt sé jafnvel enn meiri fyrir þessi jól. Ein þessara beiðna stakk mig í hjartastað, hún hljómar svo:

“Góðan daginn jólasveinahjálparkokkar er einhver sem getur hjálpað með jólagjöf fyrir eina 4 ára, hana langar svo í alvöru Barbie dúkku í bleikum kjól (er efst á hennar óskalista) Sendu á mig skilaboð ef þú getur hjálpað📷😉 Bestu kveðjur Hildur 📷🤶”

Það er búið að bregðast við beiðni þessarar ungu stúlku sem langar mest af öllu í ekta Barbie dúkku í bleikum kjól og já, ég endurtek, búið er að tryggja að þetta barn fái eina slíka en enn er verið að skrá börn sem eiga óskir um jólagjafir sem foreldrar þeirra geta ekki mætt.

Beiðnin minnir mig hins vegar á aðstæður barna sem búa við fátækt, barn sem þráir leikfang af sama tagi og sömu gæðum og vinirnir eiga en þarf að sætta sig við eftirlíkingu, ódýru plastdúkkuna sem ekki bara er miklu léttari, á lélegri föt og er ekki í sömu stærð og hinar og passar því ekki í leikinn eða leikmunina heldur getur ekki beygt nein liðamót eða skipt um hárgreiðslu.

Auðvitað gleðst barn í hjarta sér yfir gjöf þegar það veit að foreldri hefur ekki fjármuni til slíkra hluta og sum börn eru fyllilega meðvituð um að foreldrið hefur jafnvel sleppt reikningi eða neitað sér um mat til að kaupa gjöfina en barnið veit líka að ódýra dúkkan, eftirlíkingin stenst ekki samanburð og að barnið stendur ekki jafnfætis sínum félögum fyrir vikið.

Sum þessara barna eru jafnvel komin með fjárhagsáhyggjur kornung.

Alltof oft hitti ég fólk sem býr við fátækt sem heldur í þá trú að það hafi náð að fela fátæktina fyrir börnum sínum. Það er kannski nauðsynlegt fyrir sálarheill viðkomandi því þetta fólk hefur lagt gríðarlega mikið á sig til að tryggja að börnin þeirra hafi í sig og á og oft lagt líf og heilsu að veði við að reyna að halda börnunum utanvið það en ykkur er óhætt að trúa því að börnin vita. Þau láta það ekki í ljósi því þau verða fljótt dugleg að fela langanir sínar og læra að gleðjast yfir litlu en börnin vita meira en ykkur grunar og þau vita alveg upp á hár að þau standa ekki jafnfætis öðrum börnum þegar kemur að allskonar hlutum en verst af öllu er að þau vita líka að þau fá ekki sömu tækifæri í lífinu jafnvel þó þau séu vel gefin og hæfileikarík að upplagi – það er það sem fátæktin gerir þessum börnum, brýtur niður sjálfsmynd þeirra, setur ósýnileg mörk á möguleika þeirra til að nýta hæfileika sína til að gera það besta úr sjálfum sér og sínu lífi, reynir á öll þolmörk og ef ekkert breytist þá samlagast þau á endanum því lífi og þeim aðstæðum sem lífið býður þeim upp á og festast þannig líkamlega, andlega, siðferðislega og félagslega.

Hver og einn einstaklingur sem býr við fátækt og félagslega einangrun á Íslandi er einum einstaklingi of mikið. Hvert og eitt einasta barn á Íslandi sem býr við fátækt er einu barni of mikið.

Beiðnin um alvöru Barbie í bleikum kjól er í mínum huga beiðni um það einfalda jafnrétti að fá að vera hluti af samfélaginu í stað þess að horfa á það úr fjarlægð og fá ekki að vera með.

Kæra ríkisstjórn, á meðan það er fátækt á Íslandi þá eruð þið ekki að standa ykkur í vinnunni. Hættið að finna afsakanir og finnið leiðir til að hækka ráðstöfunarfé örorkulífeyrisþega STRAX því við vitum að í þeim hópi er fjöldi fátækra mestur og þar er einfaldast að byrja.

Ásta Dís Guðjónsdóttir

Stjórnarmaður í EAPN á Íslandi og samhæfingarstjóri Pepp Ísland, samtök fólks í fátækt.