Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið í dag.  Margir geta glaðst yfir auknum fjárveitingum í aðdraganda jólanna.  Við fyrstu yfirsýn virðast þeir fátækustu í samfélaginu ekki geta sagt það sama þótt heildarafgangur ríkissjóðs fyrir árið 2018 er áætlaður 35 milljarðar króna.

Frumvarpið á að endurspegla fyrstu áherslur nýrrar ríkisstjórnar „sem miða að því að samfélagið allt njóti góðs af yfirstandandi hagvaxtarskeiði og treysta til framtíðar samfélagslegan stöðugleika, velsæld og lífsgæði.“ skv. fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins.

Öryrkjar, langveikir og atvinnulausir eru þeir sem líklegastir eru til að búa við fátækt skv. mælingu á skort á efnislegum gæðum.  Árið 2015 bjuggu 23% þeirra sem skilgreina sig sem öryrkjar við skort á efnislegum gæðum og 2,5% ellilífeyrisþega.  Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að bætur öryrkja munu dragast áfram aftur úr bótum aldraðra með 1,1 milljarða króna aukningu til aldraðra vegna hækkun frítekjumarks.  Ekkert sambærilegt er að sjá til öryrkja.  Hækkun framlaga skýrist af fjölgun öryrkja og lögbundinni verðlagshækkun bóta. Meðaltekjur ellilífeyrisþega voru fyrir væntanlega breytingu rúmar 384.000 krónur á mánuði á meðan meðaltekjur öryrkja voru tæpar 333.000 krónur á mánuði, eða sem svarar mismun upp á 612 þúsund krónum yfir árið.

Lægstu bæturnar í samfélaginu eru bætur atvinnulausra og fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna.  Ekkert er að finna í kynningu fjármálaráðherra um hækkun bóta atvinnulausra né aukna fjárveitingu til sveitarfélaga til að hækka fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sem er lágmarksframfærslan í landinu.

Fleiri börn en fullorðnir búa við fátækt á Íslandi.  Hærri stuðningur við barnafjölskyldur hefur verið eitt af baráttumálum þeirra sem láta sig fátækt varða.  ASÍ benti á fyrir fjárlög ársins 2016 að skattbyrði þeirra sem lægstar tekjurnar hafa og einstæðra foreldra hefði aukist verulega frá 1998 m.a. vegna lækkandi barnabóta.  Ástæðan væri að barnabætur hefðu ekki haldið í við þróun launa né verðlags, skerðingarhlutföll vegna tekna hefðu aukist allra síðustu ár og frá og með tekjuárinu 2010 voru allar barnabætur tekjutengdar, líka fyrir 7 ára og yngri.  Því hefur verið lögð áhersla á að snúa þessari þróun við, m.a. í tillögum Velferðarvaktarinnar gegn fátækt.  Útgjöld til barnabóta hækka um 900 milljónir króna, úr 10,5 milljarðar króna úr 9,6 milljörðum króna.

Í mennta- og menningarmálum má sjá aukningu útgjalda til ýmissa þátta en lítið sem ekkert sem mun nýtast þeim sem berjast við fátækt.  Þannig eru engin áform um að lögfesta gjaldfrjáls námsgögn og skólamáltíðir grunnskólabarna, né að tryggja fátækum aðgengi að menntun og listum líkt og gert er víða í nágrannalöndum okkar.

Í skattamálum ber að fagna að fjármagnstekjuskattur hækkar úr 20% í 22%.  Ekkert kemur fram um hækkun persónuafsláttar en sú aðgerð myndi nýtast tekjulægri einstaklingum best.  Ein meginástæða þess að tekjulægstu hóparnir hafa borið sífellt hærri skattbyrði er að persónuafslátturinn hefur ekki fylgt launaþróun skv. greiningu ASÍ.

Í tillögum sem lagðar hafa verið fram um aðgerðir í þágu þeirra sem búa við fátækt og félagslega einangrun hefur verið lögð áhersla á mikilvægi frjálsra félagasamtaka.  Oft eru hjálparsamtök síðasta úrræði fólks þegar allt annað hefur brugðist.  Ekkert var að finna í kynningu fjármálaráðherra á fjárlagafrumvarpi ársins 2018 um aukinn stuðning við frjáls félagasamtök, hvorki  með skattaívilnunum eða auknum beinum fjárstuðningi hins opinbera.

Fyrsta umræða um fjárlagafrumvarpið fer fram á morgun, fimmtudaginn 15. desember og er hægt að fylgjast með henni á vef Alþingis.